Biðlaun eru yfirleitt laun sem starfsmaður getur fengið ef hann hættir í starfi vegna ákveðinna ástæðna og er ekki kominn með annað starf í tiltekinn tíma.

Ef viðkomandi fær annað starf innan þess tímaramma þá dragast þau laun frá biðlaunum. Þannig að ef launin í nýja starfinu eru hærri þá fær viðkomandi engin biðlaun. 

Nú hefur þingmaður Flokks fólksins ákveðið að þiggja biðlaun úr fyrra starfi þrátt fyrir að hafa sjálfur sagt upp starfi sínu og verið kominn á hærri laun sem þingmaður. 

Segist þingmaðurinn, sem að eigin sögn er fyrrum forystusauður verkalýðsbaráttunnar, líta á biðlaunin sem tímabundna afkomutryggingu og hefur sett þau inn á varasjóð fyrir fjölskyldu sína.

Þá segist þingmaðurinn ekki búa við þann lúxus að geta farið í leyfi, eins og opinberir starfsmenn, og gengið að fyrra starfi eftir að þingsetu líkur.

Það er áhugavert að þingmaðurin noti orðið ,,lúxus“ um þessi réttindi og hefði ég haldið að fyrrum formaður Landssambands íslenskra verzlunarmanna myndi frekar vilja gera breytingar á þessum lögum og jafna réttindi launþega og opinberra starfsmanna í stað þess að nota lögin sem rök fyrir eigin launagreiðslu. 

Vekur þetta mál upp margar spurningar og vil ég þakka Morgunblaðinu fyrir umfjöllunina.

TGS 2024