Öflugt atvinnulíf leggur grunninn að góðu velferðarkerfi, framþróun og hagsæld. Það er því hagur okkar allra að efla atvinnulífið. Til þess að efla atvinnulífið þurfum við að skapa hvetjandi umhverfi fyrir fólk og fyrirtæki. Umhverfi þar sem við fáum tækifæri til að nýta hæfileika okkar. Umhverfi þar sem að fólk langar til að leggja sitt af mörkum, fyllist eldmóði og kemur hugmyndum í framkvæmd. Umhverfi þar sem nýsköpun og framþróun eru í fyrirrúmi. Umhverfi þar sem fyrirtæki fá súrefni til að efla starfsemi sína og geta ráðið til sín fleira fólk. Umhverfi þar sem við eflum verðmætasköpun og aukum lífsgæði. 

Nýtum þekkingu, reynslu, vilja og getu 
Hvetjandi umhverfi þarf að vera til staðar fyrir fólk óháð aldri. Um það bil 45.000 manns teljast vera eldri borgarar hér á landi. Þessi stóri hópur, sem spannar um 35 ára aldursskeið, er verulega sundurleitur og með ólíkar þarfir. Margir þeirra sem komnir eru á efri ár búa yfir mikilli reynslu og þekkingu og hafa bæði vilja og getu til þess að nýta hæfileika sína og þekkingu sjálfum sér og samfélaginu til hagsbóta. Eins og málum er háttað í dag er lítill hvati til slíks hjá eldra fólki, nema síður sé. Eldri borgarar þurfa, og eiga, að geta notið afraksturs athafna sinna og starfa. Þeir eiga að fá að njóta hæfileika sinna og tækifæra á vinnumarkaði og greiða um leið, líkt og aðrir, skatta af launum sínum. Í dag er þeim bókstaflega hegnt fyrir það að vinna lengur með of miklum skerðingum. Forræðishyggja hins opinbera í garð eldri borgara þarf að víkja fyrir frelsi þeirra til eigin ákvarðana og athafna. Hvatinn til að láta til sín taka þarf að vera til staðar fyrir fólk á öllum aldri. 

Hagsæld og lífsánægja
Ávinningur af hvetjandi umhverfi til athafna er mikill fyrir okkur öll. Það er nauðsynlegt að fólk sjái tilgang og hag af því að starfa á vinnumarkaði og leggja sitt af mörkum. Það á við um ungt fólk og þá sem eldri eru. Eldri borgarar hafa flestir verið á vinnumarkaði árum og áratugum saman og hafa með eljusemi sinni lagt grunn að því samfélagi sem við erum svo lánsöm að byggja á. Þekking þeirra og reynsla má ekki fara forgörðum né efnahagslegur ábati af störfum þeirra.  Atvinnulífið þarf á því að halda að fólk á öllum aldri vilji starfa svo lengi sem það hefur vilja og krafta til. Kerfið má ekki vera þannig að dregið séð úr hvata fólks til að leggja sitt af mörkum. Hvetjandi umhverfi leiðir af sér aukna hagsæld fyrir samfélagið allt og eykur lífsánægju fólks. Það er allra hagur.

Ég óska eftir þínum stuðningi í 3. sætið.

Sigþrúður Ármann. Höfundur er lögfræðingur og framkvæmdastjóri. Býður sig fram í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.

TGS 2024