Sterkt og öflugt atvinnulíf er forsenda þess að hægt sé að bjóða upp á öflugt menntakerfi, heilbrigðiskerfi, velferðarkerfi og tryggja að íslenskt samfélag haldist áfram í fremstu röð í lífsgæðum og tækifærum fyrir alla Íslendinga.
Áskoranir atvinnurekenda
Það eru margar áskoranir sem atvinnurekendur standa frammi fyrir. Sem framkvæmdastjóri og einn eiganda og stjórnarformaður harðfiskverkunar í Hafnarfirði hef ég persónulega reynslu af því að reka fyrirtæki og mæta þessum áskorunum. Atvinnurekendur þekkja það á eigin skinni hvernig það er að þurfa að eiga fyrir launum um hver mánaðarmót, að þurfa að greiða tryggingagjald, sem er skattur á að hafa fólk í vinnu, að hagræða og skera niður, að takast á við vaxtahækkanir og síauknar kröfur, svo ekki sé minnst á skrifræðið frá opinberum aðilum.
Það verður að segjast eins og er að róðurinn er oft þungur og skilningur hins opinbera á hversu erfitt rekstrarumhverfið getur verið er í mörgum tilvikum lítill. Atvinnurekendur vita hve þýðingarmikið það er að lækka skatta og gjöld, einfalda regluverkið, hafa nægan aðgang að orku, huga að nýsköpun og sækja stöðugt fram í stað þess að staðna.
Bruðlum ekki með skattfé annarra
Atvinnurekendur og launafólk vita hve miklu máli það skiptir að hið opinbera fari vel með skattfé þess. Það svíður að sjá þegar stjórnmálamenn bruðla með fé annarra. Ef við horfum á meðallaun skv. launarannsókn VR og reiknum skatttekjur af þeim, þá fóru skatttekjur um 47 einstaklinga í það að greiða um 60 milljónir króna fyrir innflutning gæludýra hælisleitenda um daginn. Ef við skoðum framlög ríkisins til Ríkisútvarpsins, sem eru yfir 6.000 milljónir á ári, þá fara skatttekjur um 4720 einstaklinga í það að greiða fyrir rekstur þriggja útvarpsstöðva, tveggja sjónvarpsstöðva auk samfélagsmiðla Ríkisútvarpsins. Það skiptir miklu máli að Sjálfstæðisflokkurinn framfylgi stefnu sinni um að skapa heilbrigt og hvetjandi umhverfi fyrir atvinnulífið og nýti krafta einstaklingsins til fulls. Rödd atvinnulífsins þarf að heyrast á Alþingi. Ég býð fram krafta mína til góðra verka fyrir land og þjóð og sækist eftir stuðningi í 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, 19. október 2024.