Allt of oft lesum við fréttir af fjöldauppsögnum starfsfólks hjá fyrirtækjum. Það sýnir okkur hve erfitt það getur verið að byggja upp fyrirtæki og halda uppi rekstri. Fyrirtæki mæta stöðugum áskorunum í sínum rekstri og margt þarf að ganga upp.
Verðmætasköpun verður til hjá fyrirtækjum
Verðmætasköpun í samfélaginu er forsenda þess að hægt sé að bjóða upp á framúrskarandi heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfi, öruggt samfélag fyrir borgarana og góða innviði. Verðmætasköpunin verður til hjá fyrirtækjum landsins ekki hjá opinberum stofnunum. Því skiptir miklu máli að við byggjum upp hvetjandi umhverfi fyrir fyrirtæki á Íslandi bæði stór og smá. Það verður að vera hvati fyrir fólk til að láta hugmyndir sínar verða að veruleika og fyrirtæki eiga að geta vaxið úr því að vera lítil frumkvöðlafyrirtæki í að verða vinnustaðir fjölmargra og skapa þannig verðmæti fyrir samfélagið.
Fyrirtækin þurfa að keppa við ríkið
Það skýtur því skökku við að samkeppni íslenskra fyrirtækja við hið opinbera um starfsfólk hefur harðnað. Á síðustu fimm árum hafa laun hjá sveitarfélögum hækkað um 40% og um tæplega 30% hjá ríkinu. Þegar við bætist styttri vinnutími, öflugri lífeyrisvernd og betra skjól fyrir uppsögnum en almennt þekkist á almennum vinnumarkaði, verður erfitt fyrir almenn fyrirtæki að keppa við slíkt. Það er að mörgu leyti orðið þægilegra og öruggara fyrir starfsfólk að vinna hjá hinu opinbera og þurfa ekki að hafa áhyggjur af launaútborgun, safna góðum lífeyrisréttindum og geta hætt í vinnu eftir hádegi á föstudögum á meðan nágranninn sem vinnur hjá einkafyrirtæki klárar sinn vinnudag. Þá er opinber markaður í auknum mæli farinn að yfirbjóða laun fyrirtækja til að fá fólk til starfa. Það er ekki góð þróun.
Þrotlaus vinna
Stjórnendur fyrirtækja vinna viðstöðulaust við að koma hugmyndum í framkvæmd og geta gleymt því að vinnudagurinn sé bundinn við átta klukkustunda stimpilklukku. Frumkvöðlar og stjórnendur eiga ekki örugga fimm ára ráðningu líkt og forstjórar ríkisstofnana. Þeir þurfa að takast á við endurteknar launahækkanir vegna kjarasamninga óháð velgengni fyrirtækja, sjá til þess að eiga fyrir launagreiðslum um hver mánaðarmót og takast á við hækkanir á fjármagnskostnaði. Eigendur fyrirtækja þurfa stanslaust að huga að lausafjárstöðu, semja við lánastofnanir um frekari lán eða greiðsludreifingu og jafnvel að fara í hlutafjárhækkun til að geta haldið áfram með reksturinn. Margir hverjir veðsetja húsnæði fjölskyldu sinnar í þeim tilgangi að geta hafið rekstur eða halda honum gangandi. Stjórnendur fyrirtækja þurfa stöðugt að vera að hagræða, haga seglum eftir vindi, sækja fram og oftar en ekki, þegar flest allt annað hefur verið reynt, neyðast fyrirtæki til að segja upp starfsfólki. Það er aldrei auðveld ákvörðun.
Er slæmt að ganga vel?
Atvinnulífið er oft gagnrýnt fyrir það að skila hagnaði, eins og það sé hið versta mál þegar rekstur gengur vel, hægt er að halda starfsfólki í vinnu og auka verðmætasköpun í samfélaginu. Við megum ekki taka velgengni fyrirtækja sem gefnu og þurfum að búa svo um hnútana að atvinnulífið geti sótt fram á grunni nýrra tækifæra, aukið samkeppnishæfni sína og ráðið til sín öflugt starfsfólk. Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir lægri sköttum í gegnum tíðina en hugmyndir vinstri flokka um að auka skattheimtu á fyrirtæki draga úr krafti atvinnulífsins og auka líkur á frekari uppsögnum og gjaldþrotum.
Hvernig eflum við atvinnulífið?
Við þurfum að leita leiða til að efla atvinnulífið enn frekar til að mynda með lækkun tryggingagjalds, sem er sérstakt gjald sem launagreiðendum ber að greiða af heildarlaunum launamanna sinna. Þá þarf að útvista frekari verkefnum frá hinu opinbera til fyrirtækja og hagræða í ríkisrekstrinum. Við þurfum að einfalda regluverk, sem oft er of íþyngjandi, auka skilvirkni frá eftirlitsstofnunum hins opinbera og efla nýsköpun í atvinnulífinu, til að mynda með áframhaldandi stuðningi við rannsóknir og þróun íslenskra nýsköpunarfyrirtækja líkt og hefur verið gert. Þá þarf hið opinbera að hætta að leiða launahækkanir og stýrivextir verða að lækka.
Fögnum velgengni fyrirtækja
Við viljum ekki lesa fleiri fréttir um hópuppsagnir íslenskra fyrirtækja. Við viljum heldur lesa fréttir um velgengni íslenskra fyrirtækja og eigum að fagna þeim, því með öflugu atvinnulífi og hvötum til að skara fram úr, eykst verðmætasköpun. Það stuðlar að betra samfélagi, velferð, framþróun og hagsæld til að hægt sé að standa undir grunnstoðum samfélagsins og skapa betri lífsgæði fyrir okkur öll.