Mikil breyting hefur orðið á aldurssamsetningu þjóðarinnar á undanförnum árum. Fæðingartíðni hefur lækkað en meðalaldur hækkað og eldri borgurum fjölgað verulega. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni teljast um það bil 45.000 manns vera eldri borgarar hér á landi. Þessi stóri hópur er hins vegar verulega sundurleitur með ólíka hagsmuni, mismunandi skoðanir, þarfir og langanir. Þegar rætt er opinberlega um þennan stóra og ört vaxandi hóp ber mest á umræðu um lífeyrismál og þær skerðingar sem eldri borgarar hafa verið neyddir til þess að sæta og stöðu hjúkrunarheimila. Um er að ræða brýn og alvarleg mál sem samt hafa ekki fengið þá athygli á Alþingi sem eðlilegt má teljast. Það þarf að taka af festu á málum þessa stóra hóps.
Heildstæð stefna í málefnum eldri borgara
Þær kynslóðir, sem mynda hóp eldri borgara, hafa lagt mikið á sig til að byggja upp það velsældarþjóðfélag og þann þjóðarauð sem við njótum í dag. Sú uppbygging hefur ekki orðið til af sjálfu sér heldur með eljusemi og óbilandi trú á að hægt væri að stefna hátt. Hver og einn hefur lagt sitt að mörkum, á sinn hátt, til að rekstur samfélagsins gangi. Á tyllidögum er stundum á þetta minnst og um það fjallað en orðum þurfa að fylgja athafnir.
Það þarf að móta heildstæða stefnu í málefnum eldri borgara. Hér er um að ræða risavaxið þjóðfélagsverkefni sem ekki má ýta til hliðar. Ljóst er að þarfir fólks eru mjög mismunandi og lausnir þurfa að vera einstaklingsmiðaðar. Einfalda þarf flókið og sundurleitt lagaumhverfi í málefnum eldri borgara og gera það skilvirkara. Forræðishyggja hins opinbera í garð eldri borgara þarf að víkja fyrir frelsi þeirra. Eldri borgarar hafa unnið sér inn sín réttindi án þeirrar áhengju að þurfa að hætta atvinnu. Eldri borgarar þurfa, og eiga, að geta notið afraksturs athafna sinna og starfa og eiga að fá að njóta hæfileika sinna og tækifæra á vinnumarkaði án þess að þeim sé bókstaflega hegnt fyrir það með allt of miklum skerðingum, sem virka sem hemill á athafnasemi og lífsánægju.
Aldur er afstæður
Við þurfum að finna nýjar leiðir á nýjum tímum til þess að brúa bilið sem aldraðir standa frammi fyrir þegar kemur að því að búseta í heimahúsi er orðin erfið en dvöl á hjúkrunarheimili er ekki endilega sá kostur sem helst ætti að líta til. Við þurfum að átta okkur á því að aldur er afstæður og ekki hægt að setja sömu viðmið fyrir þennan stóra og ólíka hóp. Gleymum því ekki að allir vilja verða aldraðir en fáir vilja vera aldraðir. Hár aldur á að vera lífsgæði en ekki baggi á samfélaginu.
Sigþrúður Ármann.
Höfundur er lögfræðingur og framkvæmdastjóri. Frambjóðandi í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.